Áfram með smjörið

Jæja, nú er þó nokkuð langt síðan ég skrifaði fyrstu færsluna mína. Þó ég hafi ekki skrifað svona lengi þá festi ég mig ekki í á í hestaferðinni, ég slapp við allar svoleiðis torfærur. Annars var þetta mjög skemmtileg ferð og ég er búin að bóka mig sem bílstjóra næsta sumar, það er ekki eins og ég geti notað meira minna prófið mitt í eitthvað annað.

Ferðin út til Noregs með Norrænu var viðburðasnauð fyrir utan hellings sjóveiki, ég komst að því að það er ekkert rosalega skemmtilegt að ferðast einn, ég er búin að ákveða að biðja mömmu og pabba um að senda Heiðveigu systur mína eða mömmu út áður en ég fer heim svo ég þurfi ekki að fara ein til baka Wink Rosalega sniðugt. Ég borðaði rosalega góðan mat í Norrænu, það var uppbókað á Buffet veitingastaðnum svo að ég fór á a la carte og sá þar rosaflotta kjöttvennu sem var bara seld á þrírétta matseðli svo að ég skellti mér á hana, verst að maturinn var ekki alveg jafn góður þegar ég skilaði honum upp aftur Undecided Sem sagt sjóveiki dauðans. Ég borðaði nánast ekkert eftir þetta í tæpa 2 daga.

Færeyjar er skemmtileg eyja og Þórshöfn krúttlegur lítill bær. Ég þurfti sem sagt að stoppa þar í 3 daga á meðan Norræna sigldi til Danmerkur og kom svo til baka. Ég var svo heppin að hitta akkúrat á Ólafsvökuna (sem ég held reyndar að ætti að heita Ólafsvika, Ólavsøkan á færeysku). En ég flakkaði um bæinn, fylgdist með kappróðri og kappríðingu Wink og dansaði svo vikivaka við Orminn langa að færeyskum sið. Ég varð mjög hamingjusöm þegar ég stoppaði á bensínstöð og sá að þar fékkst íslenskur Kristall (ég sakna hans svooooo mikið), svo fékkst íslensk kokteilsósa í búðinni (ég man nú ekki hvort það var E Finnsson eða eitthvað annað en íslensk var hún). Apótekið var líka kærkomin sjón og þar fengust sjóveikistöflur í pakkavís, ég lét mér nú samt nægja einn pakka.

Ferðin frá Færeyjum til Noregs var viðburðarsnauðari en sú fyrri en ég var þó ekki sjóveik í þeirri ferð, þökk sé hinum færeysku "koffinautin tablettir fyrir sjóverk og ovurviðkvæmi". Skipið lagði að ströndu Noregs við Bergen um klukkan 6 að kvöldi og þá keyrði ég yfir til Voss og gisti þar um nóttina. Morguninn eftir lagði ég svo af stað til Osló. Ég missti töluna yfir hversu mörg göng ég keyrði í gegnum en þar á meðal voru ein 11 km löng göng og önnur 24,5 km göng sem eru lengstu göng í Evrópu (a.m.k. Evrópu, ekki viss samt hvort til séu lengri göng). Ég hélt virkilega að ég myndi aldrei komast út úr þeim en þau voru samt rosalega flott, inni í þeim voru 3 kringlótt "herbergi" sem lýst voru upp með bláum og gulum ljósum svo innan úr göngunum var þetta ekki ósvipað því að sjá enda gangnanna framundan.

Á endanum komst ég til Osló og keyrði strax til skrifstofu stúdentafélagsins þar sem ég fékk afhendan lykilinn að herberginu mínu í Pilestredet studenthus, sem er nota bene á sjöttu hæð og lyftan lítur svo fornaldarlega út að ég nota hana ekki nema ef ég er með þunga matarpoka eða dót úr Ikea, annars nota ég alltaf stigann. Ég kom sem sagt til Osló 1. ágúst og hafði hugsað mér að kynnast fólkinu í húsinu og borginni til 20. ágúst þegar skólinn átti að byrja. En.... nei, það var sama sem ekkert fólk í húsinu og í ofanálag þá gat ég ekki fengið internetið fyrr en skólinn byrjaði! Svo... hvað átti ég að gera þangað til skólinn byrjaði.... Nú, auðvitað að skella mér í frí heim til Íslands Grin Ég er svoooo sniðug.

Ég bókaði mér sem sagt far heim til Íslands 3. ágúst og svo aftur út til Noregs 17. ágúst. Ég held samt að mamma og pabbi hafi verið mjög fegin þar sem ég gat þá hjálpað til við að flytja. Þar sem ég var sú eina sem mátti keyra gullvagninn með hestakerrunni aftan í. Reyndar bilaði gullvagninn í 3. ferðinni, hann festist í bakkgír uppi í Borgarnesi. En það var nú samt rosalega fínt að koma heim aftur eftir þetta langa ferðalag Wink Og nóg að gera þangað til ég fór aftur út. Nú hef ég svo ekki tíma til að kíkja aftur heim fyrr en um jólin, en ég er búin að bóka heim 22. desember (svo ég missi nú ekki af því að vera skötudriver) og aftur út 15. janúar. Svo ég fæ alveg 3 vikur heima Smile


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hæ hæ

 ég var búinn að vera að hugsa um hvort þú værir ekki með blogg, og viti menn með google finnst allt eins og skot. :O)

Það er auðvitað enginn námsmaður sem hefur farið út í nám og komið svona fljótt aftur heim í heimsókn nema þú :) en jæja. ég bíð spenntur eftir smá færslu um skólann og hvernig lífið við AHO er. hvort þetta sé eitthvað sem þú mælir með eða..... :)

en jæja...hafðu það gott þarna og við heyrumst

kveðja, Helgi

Helgi Einars (IP-tala skráð) 16.9.2007 kl. 21:52

2 identicon

Humm, einhverra hluta vegna hljóma kappríðingar einstaklega perralegar og jafnvel spennandi.

Held samt að þú verðir að tékka möguleikann á því að fara aftur út eftir 19 janúar, þar sem Guðlaug og Gulli ætla að gifta sig þá.

Og já, eitt enn, þú sleppir að segja frá því að ástæðan fyrir því að bíllinn festist í bakkinu, var sú að þú varst með trukkastæla og sleist vírinn. 

Krissa litla frænka (IP-tala skráð) 19.9.2007 kl. 02:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband