27.10.2007 | 23:15
Námsferð í Sviss
Ég kom heim úr þessari þvílíku námsferð. Þetta er víst venjan í AHO. Það er alltaf farið í námsferð á hverri önn. Þetta var sem sagt námsferð tengd áfanganum reisens landskap þar sem við vinnum með norska ferðamanna vega verkefnið (turist vej prosjekt).
Ég byrjaði á því að fljúga á föstudagsmorgni til Köben þar sem ég gisti hjá Jóni Rafnari og Þórdísi og hitti svo alla hina líka, Bellu, Dýrleifu, Lindu og Sigga (Stefán og Hlynur stungu af í ferðalag svo ég hitti þá ekki). Það var nú alveg ótrúlegt að ég var ekki sú eina í fjölskyldunni sem var í Köben þessa helgi. Amma Vala og Sigga Frænka voru búnar að vera það og ég rétt náði í skottið á þeim áður en þær tóku leigubíl út á flugvöll. Kristbjörg "litla" frænka mín var líka þar í námsferð, og við kíktum saman í verslunarleiðangur. Þetta var alveg yndisleg helgi, ég fór með Kristbjörgu á föstudeginum á kínverskt veitingahús þar sem við fengum mjög góðan mat og svo fór ég með Dýrleifu, Lindu, Sigga og Bellu á Jensens böffhouse á laugardeginum. Ég flaug svo til Zürich á sunnudagsmorguninn.
Ég lenti á flugvellinum í Zürich og dreif mig á hótelið sem ég átti bókað í eina nótt þar sem ég átti að hitta bekkinn minn á mánudagsmorgni á flugvellinum. Ég byrjaði á því að leggja mig aðeins þegar ég kom á hótelið þar sem ég svaf ekki mikið um nóttina Þegar ég vaknaði ákvað ég að skella mér í göngutúr og ég gekk meðfram ánni, gegnum almenningsgarð og skoðaði kínverskan garð. Ég er ekki alveg viss hversu lengi ég gekk en ég var orðin svo þreytt að ég bara orkaði ekki að ganga lengra, ég var svo heppin að rekast á bensínstöð þar sem fólkið var svo vænt að hringja á leigubíl fyrir mig
Á mánudagsmorgun lögðum við svo af stað í ferðalagið á tveimur bílaleigubílum. Við keyrðum fyrst í bæ rétt við hliðina á Zürich, Or... eitthvað þar keyrðum við um og leituðum að mjög sérstökum almenningsgarði. Eftir þó nokkuð hringsól fundum við garðinn. Þetta er garður sem er að hluta til byggður upp. Þetta er eins og húsgrind með pöllum og stigum og utan á grindinni vaxa klifurplöntur. Innan í grindinni voru svo bekkir og tjörn og gróður. Ég fór alveg upp og ég verð nú að segja að ég er ekkert rosalega hrifin af að vera hátt uppi en alltaf fer ég upp samt. Pallarnir voru úr járni og göt á milli svo að maður sá alveg niður frekar óþægilegt fannst mér, ég ríghélt mér í handriðið.
Eftir að skoða garðinn héldum við áfram, við stoppuðum í litlum bæ, Vallestadt (geitabærinn mikli, það var allt fullt af keramikgeitum) til að fá okkur að borða, við gengum um bæinn og fundum nokkra matsölustaði, gallinn var bara sá að það var allt lokað! Við urðum þá að halda áfram að leita og keyrðum aðeins lengra. Þar urðum við ekki fyrir vonbrigðum, Við rákumst á Heidiland! Fyrir utan var stór spiladós þar sem var sungið Heidilagið úr sjónvarpsþáttunum og risabrúður, Heidi, smalinn (mig minnir að hann heiti Pétur) og ansi stór geit skemmtu aðkomufólki. Ég verð nú að segja að ég sprakk gjörsamlega úr hlátri Þetta var eitthvað svo týpískt túristafyrirbæri. En á matsölustaðnum var mjög flott hlaðborð með alls kyns mat. Eftir matinn héldum við áfram upp í fjöllin þar sem við keyrðum að Salginatobel brúnni sem er yfir fjallagil. Það er hægt að fara innan í brúna og auðvitað varð maður að prófa það þá var haldið áfram til Chur þar sem við skoðuðum nýja kapellu og kirkjugarð. Það var verst hvað var orðið dimmt úti svo að það gekk ekki mjög vel að taka myndir og við fundum ekki slökkvara inni í kapellunni til að kveikja ljós.
Við gistum á farfuglaheimili í bæ sem heitir Laax, þar deildum við 3 saman herbergi með mjög þægilegum rúmum, hlýjum sængum og góðu baðherbergi. Um kvöldið borðuðum við á veitingastað neðar við götuna þar sem við pöntuðum okkur mjög góðan mat, kjöt (sem ég man ekki hvað var) í steinsveppasósu með rösti kartöflum. Daginn eftir fórum við í góðan göngutúr þar sem við skoðuðum útsýnispall í Flims sem er bær við hliðina á Laax. útsýnispallurinn er byggður á fjallsbrún og það er mjööööög hátt niður. Ég fékk virkilega í magann. En útsýnið var frábært! Það var líka gott að fá smá göngutúr þó að ég hefði verið að drepast úr harðsperrum eftir sunnudagsgöngutúrinn . Þá var ferðinni heitið til Vrin þar sem við keyrðum mjög þrönga fjallavegi og í gegnum mjög lítil típísk svissnesk þorp. Í Vrin skoðuðum við gömlu húsin og umhverfið, við sáum haug af geitum og það er alveg ótrúlegt að allar geitur og kýr eru með bjöllu um hálsinn, það var rosalega flott að heyra hvernig ómaði í bjöllunum um langar leiðir. Það var frekar skrítið þarna að eina fólkið sem maður sá var allt yfir sjötugu. Spurning hvort að unga fólkið flytji allt til stórborganna. Það væri synd ef þetta myndi leggjast í eyði.
Áfram héldum við og byrjuðum í bænum Andermatt þar sem við sóttum einn úr bekknum sem hafði sofið yfir sig og misst af fluginu á mánudeginum, en í stað þess að sleppa ferðinni tók hann flug daginn eftir og lest frá Zürich til Andermatt. Frá Andermatt keyrðum keyrðum við um fjallavegina Furka og Nussen pass. Við stoppuðum við Rhone jökulinn þar sem venjulega er hægt að fara inn í jökulinn um 100 m göng. Við vorum þó svo óheppin að göngin voru lokuð og verið var að búa til ný. Það þarf að gera ný göng annað hvert ár vegna þess að jökullinn hopar svo hratt. Við vorum heppin að veðrið var með besta móti, nánast alveg heiðskýrt og því sáum við langar leiðir. Fjallalandslagið er ólýsanlega fallegt og gaman að keyra þarna um. Við ætluðum að keyra um Gotthardt pass á leiðinni til farfuglaheimilisins í Hospental en þar sem búið var að loka veginum fyrir kvöldið þá fórum við Gotthardt göngin. Um nóttina sváfum við á farfuglaheimili þar sem við vorum öll í sama herbergi í kojum, við fengum lakapoka til að sofa í og teppi til að hafa ofan á okkur, þetta var ekkert allt of hlýtt og ég vaknaði tvisvar um nóttina af því að mér var svo kalt, ég endaði með þrjú teppi ofan á mér og skalf samt .
Þegar við fórum á fætur daginn eftir þá var snjóföl yfir öllu og mjög lágskýjað. En það kom nú í ljós hversu gott það er að vera við öllu búin . Thea, kennarinn minn festist í bakinu og var alveg að drepast og einn af strákunum hafði náð að reka sig í og var með skurð á úlnliðnum. Svo þá bjargaði ég auðvitað deginum með skyndihjálpartöskuna mína með sótthreinsandi, plástrum, grisjum og svoleiðis auk þess að vera með íbúfen og verkjastillandi, svo ég plástraði strákinn og dópaði kennarann upp með 400 mg íbúfeni og parkódín forte . Þá lifði kennarinn bílferðina af þó að hún gæti ekki keyrt þann daginn. Ferðinn var þá haldið áfram og við keyrðum um Gotthardt pass en þar var svo mikil þoka að við sáum varla næsta bíl á undan hvað þá umhverfið í kringum okkur eða fjöllin . Þegar við komum aðeins neðar þá létti þokunni og við sáum aðeins meira af fjöllunum í kringum okkur. Við héldum áfram og stoppuðum næst í Bellazone þar sem við skoðuðum Grande kastalann. Þaðan lá leiðin yfir landamærin til Ítalíu þar sem við enduðum ferðina í Mílanó.
Við komum inn í Mílanó um 18:30 og var aðeins farið að rökkva. Þar sem ég var að fara heim morguninn eftir en hin ætluðu að vera lengur í Mílanó og kennararnir ætluðu að keyra hinn bílinn aftur til Zürich þá ákvað ég að skila bílnum til Bergamo þaðan sem flugið var. Ég hélt að það yrði minnsta mál þar sem ég hafði séð Bergamo-skilti út um allt í bænum svo ég keyrði af stað og elti Bergamo-skiltin. Það leið ekki á löngu þar ég fann ekki fleiri Bergamo-skilti, þá hélt ég að ég hefði tekið vitlausa beygju svo ég rúntaði um inni í bænum, það var orðið myrkur og ég var orðin frekar smeyk . Ég varð mjög fegin þegar ég rakst á skilti sem benti mér á lögreglustöðina, þar fann ég enskumælandi lögreglukonu sem sagði mér að beygja til hægri eftir tvenn umferðarljós og fylgja fylgja svo autostradamerkjunum. Ég gerði það og svo var ég komin á autostrada, mér varð litið upp og þar blasti við mér skiltið Venezia, ég panikaði auðvitað þar sem ég var ekkert á leiðinni til Feneyja! Tók því næstu frárein af autostrada. Þá var ég aftur komin inn í Mílanó og rúntaði aðeins meira þar um í myrkrinu inni í einhverju íbúðahverfi, allar bensínstöðvar lokaðar og ekki mikið af fólki á ferli. Ég var svo heppin að rekast á kebab stað sem var opinn, snarstöðvaði bílinn, hentist inn og spurði manninn þar hvort að hann talaði ensku, hann talaði mjög takmarkaða ensku en skildi mig þó að ég væri villt og væri á leið til Bergamo. Hann útskýrði fyrir mér að ég ætti að fara á autostrada og FYLGJA VENEZIA skiltunum um 40 km þar til ég kæmi að frárein sem sagði Bergamo. Ég fylgdi þessum leiðbeiningum og endaði í Bergamo, þegar ég hafði tekið fráreinina þá var mjög auðvelt að finna flugvöllinn og hvar ég ætti að skila bílaleigubílnum. Ég tók svo leigubíl á hótelið sem ég átti bókað og flaug svo aftur til Noregs næsta morgun.
Þetta var mjög skemmtileg ferð og mikið ævintýri. Ég held ég geti með sanni sagt að eftir þetta þá geti ég keyrt hvar sem er! Umferðin í Mílanó er hreint hræðileg, það eru engar akreinamerkingar á götunum og þeir reyna bara að troða eins miklu af bílum og þeir mögulega geta á götuna. Ég held að ég taki bara leigubíl þegar ég fer næst til Ítalíu eða muni þá eftir að taka gps tækið mitt með .
Athugasemdir
Vá, ég komst yfir það að lesa þetta á einu kvöldi, þrátt fyrir heitar samræður á msn, sem voru, eins og þú veist, að trufla mig frá öllu öðru sem ég var að reyna að gera
KrissaSm (IP-tala skráð) 28.10.2007 kl. 23:13
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.